Að koma og fara

Þegar börnin koma er mikilvægt að foreldrar komi með þau til starfsfólks deildarinnar. Alls ekki skilja þau eftir í fataherbergjum eða láta þau labba ein inn á deild.

Það er einnig mikilvægt að foreldra taki börnin ekki út úr húsi án þess að starfsfólk á deildinni viti af því.

Þá er mikilvægt öryggisatriði að foreldrar passi upp á að loka öllum hurðum á eftir sér og hliðinu í garðinum þegar gengið er þar í gegn. Við teljum æskilegt að aðeins fullorðnir opni hurðar og hliðið.

Aðlögun

Þegar barni er úthlutað plássi á Ösp fá foreldrar/forráðamenn tölvupóst þess efnis. Mikilvægt er að foreldrar hafi samband við leikskólann og láti vita hvort þeir ætli að þiggja plássið eða ekki.

Foreldrar eru boðaðir í foreldrasamtal stuttu áður en barnið byrjar og fá þá upplýsingar um hvernig aðlögun verður háttað og helstu áhersluatriði í starfi Aspar og þeirri deild sem barnið byrjar á.

Á Ösp erum við með þátttökuaðlögun. Þá er barnið í þrjá daga með foreldri, sem sinnir barninu á meðan aðlögun stendur og tekur þátt í starfinu. Það er sjálfsagt að foreldrar skipti þessum tíma á milli sín eins og þeim hentar.  Ef aðlögun hefur gengið vel þessa þrjá daga kemur barnið á fjórða degi í upphafi dags og foreldri kveður það. Gera má ráð fyrir að fjórði dagurinn sé í styttra lagi en það ákveða deildarstjóri og foreldrar í sameiningu.

Í þátttökuaðlögun kynnist barnið leikskólanum, starfsfólki og hinum börnunum með foreldrum sínum. Foreldrar kynnast starfi leikskólans og starfsfólki og eiga auðveldara með að skilja barnið eftir þegar að því kemur.  

Afmælisdagar

Okkur finnst afmælisdagar vera merkisdagar og við leggjum okkur fram við að gera daginn eftirminnilegan fyrir afmælisbarnið.
Haldið er upp á afmæli barnanna í samverustund fyrir hádegi. Börnin mega koma með uppáhaldsávextina sína ef þau vilja. Samverustundin er tileinkuð afmælisbarninu, syngjum afmælissönginn og barnið býður félögum sínum ávexti.
Afmælisbarnið gerir kórónu sem það fer með heim.

Boðskort í afmæli
Það má koma með boðskort í afmæli ef bjóða á öllum strákunum, öllum stelpunum eða allri deildinni. Starfsfólk tekur við boðskortunum og afhendir foreldrum þeirra barna sem boðið er.

Breyta vistunartíma

Ef foreldrar þurfa að breyta vistunartíma er hægt að gera það rafrænt á rafrænni Reykjavík eða á þar til gerðu eyðublaði sem má nálagst hjá Halldóru leikskólastjóra. 

Vefslóð: https://rafraen.reykjavik.is/  

Fatnaðnur og fataherbergi

Það er mikilvægt að barnið hafi allan þann fatnað sem nauðsynlegur er til að þau geti tekið þátt í starfi leikskólans. Þægilegur fatnaður sem heftir ekki hreyfingar og sem má blotna og jafnvel sulla á mat eða málningu.

Útivera er hluti af daglegu starfi og því þarf klæðnaður barnanna að vera í samræmi við veðurfar. Oft breytist veðrið og þótt sólin hafi skinið að morgni getur verið komin rigning eftira hádegi. Við hvetjum foreldra til að spyrja starfsfólk álits ef þeir eru í vafa með fataval.  

Fyrir ofan hólf barnanna eru kassar þar sem geymd eru aukaföt. Mikilvægt er að fara reglulega yfir þá og bæta fötum í þá eftir þörfum. Blaut og óhrein föt eiga að fara heim. Ekki er hægt að geyma töskur barnanna í hólfunum vegna þrengsla í fataherbergjum.

Tæma þarf allt úr hólfinu á föstudögum.

Fatamerkingar eru nauðsynlegar því að mörg börn eru að klæða sig í og úr á sama tíma á sama stað. Oft fer fatnaður á flakk og þá auðveldar frágang þegar fatnaður er merktur. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að starfsfólk þekki fatnað allra barnanna.

Við hvetjum foreldra til að fara reglulega yfir óskilamuni í þar til gerðum kössum sem eru í fataherbergjunum. 

Hver má sækja

Þegar barnið byrjar í leikskólanum fylla foreldra út eyðublað þar sem kemur fram hverjir mega sækja það.  Mikilvægt er að láta starfsfólk leikskólans vita ef einhver annar en þeir sem eru skráðir sækja barnið.

Börn 12 ára og yngri mega ekki sækja börn í leikskólann. Það er vegna þess að ekki er almennt talið æskilegt að börn yngri er 12 ára séu gerð ábyrg fyrir öryggi og velferð yngri barna á leið til og frá leikskóla. 

Opnunartími

Ösp er opin frá kl. 7.30 – 16.30

Ösp fær sex starfsdaga á ári og eru þeir ákveðnir fyrir hvert leikskólaár og má sjá hvenær þeir eru í viðburðardagatali á heimasíðunni.

Leikskólinn er lokaður í 4 vikur á sumrin og er lokunartími hvers árs ákveðinn í febrúar. Hann er  skráður í viðburðardagatal.

Ösp er lokuð á rauðum dögum í dagatali.

Tannburstun

Ösp er í þróunarverkefni ásamt öðrum leikskólum í Efra Breiðholti og Landlæknisembætti.

Eftir hádegismat burstar starfsfólkið tennur barnanna.
Lögð er áhersla á hreinlæti og fá börnin aldrei tannburstann í hendur.
Áfram er lögð áhersla á að foreldrar bursti tennur barna sinna kvölds og morgna.
þegar börnin eru orðin 3ja ára eru foreldrar hvattir til að fara með þau til tannlæknis og fyrr ef um skemmdir er að ræða. 

Veikindi barna

Leikskólinn er fyrir frísk börn og gert er ráð fyrir að börnin geti tekið þátt í öllu starfi leikskólans bæði inni og úti. Það er réttur barnsins að vera heima þegar það er veikt. Veikt barn getur smitað önnur börn og starfsfólk. Þegar barnið kemur aftur í leikskólann eftir veikindi getur það fengið að vera inni í einn til tvo daga. Ef barn þarf að vera inni eftir veikindi þarf að sækja það í síðasta lagi kl. 15:30.
Ekki er hægt að fyrirbyggja veikindi með inniveru í leikskólanum.  Börn sem erum með hita eða almenna vanlíðan eiga að vera heima  þar til þau ná heilsu.  Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá.  Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn. 
Ef barn veikist í leikskólanum hringjum við í foreldra og það er því mikilvægt að leikskólinn hafi rétt símanúmer.
Æskilegt er að foreldrar tilkynni veikindi  barna sinna  í leikskólann  í síma 4113310

Lyfjagjafir í leikskólanum skal takmarka eins og  kostur er. Starfsfólk leikskólans gefur ekki lyf nema brýn nauðsyn beri til. Ef barnið þarf að taka lyf á leikskólatíma skal foreldri hafa samband við deildarstjóra og koma öllum upplýsingum til hans.